Camillo Benso greifi af Cavour

Camillo Benso greifi af Cavour (10. ágúst 18106. júní 1861) var ítalskur stjórnmálamaður sem lék lykilhlutverk í sameiningu Ítalíu. Hann var af aðalsfjölskyldu frá Fjallalandi og varð bæjarstjóri í Grinzane þegar hann var 22ja ára gamall. Hann var kjörinn á þing konungsríkisins Sardiníu 1848 og varð forsætisráðherra 1852 með stuðningi vinstrimanna og hófsamra hægrimanna. Þegar Krímstríðið braust út sendi hann herlið til stuðnings stórveldunum Frakklandi og Bretlandi. 1858 átti hann leynilegan fund með Napóleon 3. þar sem þeir gerðu með sér samkomulag um stuðning Frakka við innlimun norðausturhéraða Ítalíu frá Austurríki-Ungverjalandi gegn því að Frakkar fengju franska hluta Savoja og Nice. Stríðið braust út 1859 og Sardinía innlimaði Langbarðaland en Frakkar drógu sig í hlé fyrr en ætlunin var. Hann aðstoðaði Giuseppe Garibaldi við að skipuleggja Þúsundmannaleiðangurinn en notaði síðan óttann við byltingu Garibaldis til að fá stuðning Frakka við innrás í Páfaríkið (að Róm undanskilinni). Þegar herlið Sardiníu kom til Suður-Ítalíu „gaf“ hann Viktor Emmanúel 2. þennan hluta landsins sem leiddi til sameiningar hluta þess sem nú er Ítalía. 17. mars 1861 var Viktor Emmanúel hylltur sem konungur Ítalíu. Eftir þetta hóf Cavour samningaviðræður við páfa en lést úr malaríu áður en þeim lauk.

Cavour greifi á málverki eftir Francesco Hayez.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forsætisráðherra Ítalíu
(1861 – 1861)
Eftirmaður:
Bettino Ricasoli